Varsjá í hnotskurn

 

Varsjá er að stofni til frá 14. öld en það var þó ekki fyrr en á árunum 1596-1611 að hún haslaði sér völl sem höfuðborg Póllands.   Árið 1596 hafði hún ekki yfir sér konunglega tign, fjarri því. Bærinn var samsafn lágreistra tréhúsa og múrsteinskirkna á masovísku sléttunni, sem var einhver órækarlegasti partur Póllands. Við flutning höfuðborgarinnar var hafist handa við að breyta þessum litla bæ í borg og engu til sparað. Konungshöllin, sem enn stendur, var þá reist og aðrar hallir á næstu áratugum, hallir sem geisla af glæsileika, hallir eins og sumarhöllin Wilanów (Villa nova) og Wazienki í garðinum við Vislu sem nú er oftast kenndur við tónskáldið Copin. Af ýmsum ástæðum hafa örlög Pólverja einkennst af yfirgangi nágrannaríkja og á tímabilinu 1772 til 1795 var Póllandi endanlega skipt upp milli hinna voldugu granna,- Rússlands, Prússlands og Austurríkis. Varsjá, þessi fyrrum svo glæsilega borg, var þá orðin samansafn illaleikinna húsa í útjaðri rússneska keisaradæmisins.  En borgin reis aftur úr rústum og í lok 19. aldar og í upphafi 20. var hún miðstöð iðnvæðingar og framfara.

            Örlaganornirnar héldu áfram að spinna.  1915 var Varsjá hertekin af  Þjóðverjum sem héldu henni þar til þeir biðu ósigur 1918, en um leið fékk Pólland sjálfstæði og Varsjá varð aftur höfuðborg sjálfstæðs ríkis.  Eftir innrás Þjóðverja í Pólland þann 1. september 1939 varð borgin höfuðskotmark, en íbúar hennar vörðust í mánuð. Þá höfðu 2.000 hermenn og 10.000 óbreyttir borgarar misst lífið og nær 70.000 voru særðir.  Nálægt helmingi bygginga voru ónýtar.  En þetta var aðeins upphafið.  Það varð brátt ljóst að nasistar ætluðu sér bæði að þurrka út borgina og íbúa hennar.  Í byrjun desember 1939 hófust fyrstu fjöldamorðin og um leið var byrjað að flytja fólk í fangabúðir og þrælkunarvinnu í Þýskalandi.

 

Gettóið

 

            Orðið „gettó“ er upprunalega nafn á afmörkuðu hverfi í Feneyjum miðalda þar sem gyðingar voru neyddir til að hafa búsetu. Síðan hefur orðið m.a. verið notað sem samheiti yfir afmörkuð hverfi þar sem gyðingar hafa verið í meirihluta.  Við ekkert hverfi í sögunni hefur nafnið þó festst jafn rækileg og það sem nasistar girtu af í Varsjá með múr og gaddavír.  Vorið 1943 gerðu íbúar gettósins örvæntingarfulla uppreisn sem knúin var fram af hinni ólýsanlegu neyð er ríkti bak við múranna. Nasistar svöruðu á þann hátt að í maí gat yfirmaður SS í Varsjá sent símskeyti til Berlínar,- gettóið er ekki lengur til.  Einu leifarnar sem standa eftir er hliðarstólpi með gaddavírskrýnda þverslá.  Allt annað var þurrkað út.

 

 

Uppreisnin í Varsjá

 

Í ágúst 1944 braust út uppreisn meðal annarra íbúa borgarinnar. Sú uppreisn stóð í tvo mánuði. Eitthvað um 150 þúsund illa búnir Pólverjar börðust gegn ofurefli. Er uppreisnin hafði verið bæld niður hófu Þjóðverjar kerfisbundna eyðingu borgarinnar.  Hvorki mannvirkjum né mönnum skyldi þyrmt.  Þessari áæltlun var svo vel framfylgt, að þegar pólskar og sovéskar herdeildir stóðu við borgina, í janúar 1945, stóðu þær ekki andspænis borg heldur rústaauðn. Af þeim 1,3 milljónum sem höfðu búið þar var varla sála eftir. 93% af öllum íbúðarhúsum borgarinnar , og 90% allra sögulegra bygginga voru eyðilögð.  Hirosíma, Dresden og Leníngrad standast tæplega samjöfnuð. Í þessari skelfingu höfðu 850 þúsund af íbúum hennar fallið, 400 þúsund í borginni sjálfri og 450 000 í útrýmingarbúðum og fangelsum. 

 

Uppbygging

 

Eftir stríð lögðu Pólverjar allan sinn metnað í að byggja upp höfuðborgina.  Þúsundir verkafólks og fræðinga streymdu  að úr öllum hornum landsins til að vinna að uppbyggingunni.  Sérstakur sjóður var stofnaður til að standa straum að kostnaðinum og í hann rann ákveðið hlutfall af kaupi alls vinnandi fólks.  Þegar árið 1949 var fyrsta hluta endurbyggingarinnar lokið og sex árum síðar var lokið við að endurreysa hávaða allra sögulegra bygginga.  Pólverjar eiga óopinbert heimsmet í endurreisn gamalla bygginga, heimsmet sem í senn er stolt þeirra og harmur.

 

Gamli bærinn

 

„Gamli bærinn“ er ekki gamall nema að nafninu til, en þó er eins og komið sé með báða fætur inn í liðnar aldir er mjó steinilögð strætin eru þrædd í átt til torgsins. Þessar mjóu götur, sem hlykkjast milli húsa eru eftirlíkingar, en samt  eru þær raunverulegar.  Frá 17. öld voru þessar götur  slagæðar pólsks kaupmannalífs.  Hér hefur verið vettvangur mikilla atburð. Hryllilegasta sagan birtist í þeirri staðreynd að göturnar og húsin  eru eftirlíkingar; samt eru það saga um mannlega reisn og mikinn stórhug.  Í þessum mjóu götum börðust pólskir hermenn og ótalin þúsund óbreyttra gegn ofurefli nasista,- það var sumar og árið var 1944.  Þá var skrifað blað í stríðsögunni, jafn mikilfenglegt og það er hryllilegt.  Ekkert var eftir nema rústir og lík.  Torgið í gamla bænum hefur yfir sér einhverja dulúð. Það iðar af lífi og segir svo margt en samt er það hljótt og leyndardómsfullt.

            Kanski var það þesssi dulúð sem Halldór Kiljan Laxness skynjaði þegar hann var þarna á ferð um miðja síðustu öld:

 

Það er ævintýralegt að stíga fótum í Varsjövu, borg sem var jafnað við jörðu af prakkaraskap fyrir skemstu. Óvíða sannfærist maður eins sterklega og hér um að hernaður Þjóðverja í síðasta stríði var í aðalatriðum einhverskonar tröllaukin húlíganismi. Furðulegt að hafa svona gaman af að skjóta saklaust fólk og brjóta niður hús þess. Látum vera að sértrúarmenn hafi þá kreddu að gyðingar (eða biflíulesarar eða kommúnistar) séu af djöflinum og því beri að leggja bústaði þesa fólks í auðn og stúta hverju mannsbarni. En að nenna að brjóta niður heila höfuðborg sem eingin sérstök kredda er til um í katekismanum, hús fyrir hús, uns ekki er eftir utan eyðimörk, og lífláta eins háa hundraðstölu af fólkinu og hægt er að komsat yfir,- slíkt er heimsundur.

 

Svona gæti söguferð til Varsjár litið út

 

Dagur 1

Við hefjum heimsókn skoðunarferð um borgina. Gamlibærinn, gettóið (gaddavírskrýnt hlið sem er það eina sem stendur eftir af því), Praga.

kl. 20. Þjóðlegur dans og söngur. (folklore) eru frægir gleðimenn, söngvarar góðir og unnendur dansmenntar. Við rannsökum kunnáttu þeirra á þessum sviðum og njótum fjögurra rétta máltíðar á meðan á rannsókn stendur. 

 

Dagur 2

Við hefjum daginn með því að ferð upp í turn ,,Tertunnar”, menningarhöllina sem Stalín gaf pólsku þjóðinni. Hún stendur í öllu sínu veldi í hjarta borgarinnar. Þaðan er afar gott útsýni yfir í Praga-hverfið á austurbakka Vislu. Í norðri blasir Gamlibærinn í sinni draumkenndu fegurð. Þegar fólk er komið niður á jörðina er stutt í konungshöllina, hermynjasafnið eða skoða í verslanir á Nowy Zwiat (Nýji heimurinn). Það er líka nautnaríkt að sitja njóta stundarinnar á torginu í hjarta gamla bæjarins.

            Seinni part dags mætti taka rútuna og skreppa til Zelazowa Wola (55 km). Þar er fæðingarstaðar tónskáldsins Fryderyks Chopan. Við skoðum húsið sem hann fæddist í, dæmigert fyrir byggingarstíl pólsks mektarfólks á 19. öld. Þetta litla safn geymir m.a. fjölskyldumyndir, húsgögn dæmigerð fyrir tímabilið og ýmsa aðra hluti sem tengjast nafni þessa ástsæla tónskálds.

 

Dagur 3

Við njótum ilms sögunnar hver með sínu nefi. Hann er óvíða sætari en í hjarta Varsjár, bæjarhlutans sem er eftirmynd sjálfs sín. Fyrir listáhugafólk er ekki langt að rölta í þjóðlistasafnið og áhugafólk um nútíma arkitektúr ætti ekki að láta hið nýgyggða Háskólabókasafn fram hjá sér fara.

 

Dagur 4

Garða. Við heimsækjum Wilanow-garðinn. Sumarhöll pólskra konunga. Að því loknu skoðum verður haldið til  Łazienki-garðsins sem kenndur er við Chopan. Þessi garður er ólíkur Barokgarðinum í Wilanow en afar fagur. Stytta af tónskáldinu tekur á móti gestum, á sólríkum sunnudögum eru þar haldnir píanótónleikar utandyra.  Það sem vekur gjarnan athygli Íslendinga eru hinir fjölmörgu íkornar og páfuglar sem spankulera þar umm í stóískum friði.

 

Dagur 5

Dagsferð til Czestochowa helsta helgistaðar sannkaþólskra Pólverja. Í klaustrinu á Jasna Gora er Svarta-María sem guðspjallamaðurinn Mattheus á að hafa málað á borðdúk hinnar heilögu fjölskyldu. Þar er herbergi sem sem geymir ,,sannanir” um kraftaverk sem gerst hafa á þessum helga stað. Í herberginu er mikill fjöldi hækja, gerfilima, hjólastóla og gleraugna sem eru til marks um að þar hafa blindir fengið sjón og lamaðir staðið upp úr kröm sinni og haltir hent frá sér hækjum sínum.

 

Dagur 6

Dagsferð til Kazimierz Dolny. Mjög fallegur miðaldabær 140 km frá Varsjá.