Þrjár Karpataþjóðir

 

Husular

 

Husular, (Hutsuls eða Huculi, Huzulen) búa í austurhluta Transkarpatíu. Nú tilheyrir svæðið Úkraínu. Um nákvæman fjölda Husula er ekki vitað en í byrjun 20. aldar voru þeir taldir vera um það bil 100 þúsund.

            Fyrir fyrri heimstyrjöld var þetta svæði hluti Austur-Galasíu sem þá tilheyrði Austuríska-ungverska keisaradæminu. 8. janúar 1919 var lýst yfir stofnun lýðveldis Husula. Stepan Klochurak hershöfðingi var kosinn forsætistáðherra og eins og vænta mátti af hershöfðingja stóð hann fyrir stofnun eitt þúsund manna hersveitar. En lýðveldið varð skamlíft því þegar rúmenskar hersveitir réðust inn í lýðveldið í júní sama ár varð ljóst að hersveit forsætisráðherrans mættu ekki við margnum. Átthögum Husula var deilt á milli Póllands, Tékkóslóvakíu og Rúmeníu en varð áður en langt um leið hluti af Zakarpattia Oblast í Úkraínska ráðstjórnarlýðveldinu.          

            Miðstöð átthaga þeirra er Corna hora (Svarta fjall) í afskekktum dölum milli ánna Pruts og Ceremos. Það var ekki fyrr en 1894, þegar austurrísk-ungverskri verkfræðisnilld tókst að leggja brautarteina um þetta erfiða fjalllendi. Þá voru lifnaðarhættir Husula byggðir að töluverðu leyti á hirðingjalífi. Þeir riðu um Karpatafjöll á sínum smávöxnu en sterkbyggðu hestum og gættu búfjár síns.

            Uppruni Husula er óljós en ýmsar tilgátur hafa verið settar fram. Samkvæmt einni eru þeir komnir af hinum fornu Skýþum (forfeðrum Ungverjaa) og Gotum.  Önnur telur þá afkomendur Mongóla og sú þriðja telur þá blöndu Rútena og Rúmena. Sjálfir nefna þeir sig einfaldlega ,,chrestiany” (hinir kristnu), en þeir tilheyra líkt og Rútenar grísku rétttrúnaðarkirkjunni.

            Mál þeirra líkist rútensku en er býsna blönduð rúmensku. Samkvæmt einni tilgátu á nafnið Husuli rætur að rekja til rúmenska orðsins ,,hochul” sem merkir ræningi. Aðrir tengja nafnið slavneska orðinu ,,kochul” – ferðalangur og vísa til hirðingjalífs þeirra. Samfélagsgerð þeirra er strangt feðraveldi. Það er ekki langt síðan að þegar kona var gift varð hún á þeirri stundu ,,eign” maka síns. Strax fyrir brúðkaupið gilti sú hefð að væntanlegur eiginmaður flengdi væntanlega brúði sína í þrígang. Þessi athöfn átti að tákna heit um undirgefni hennar. Ofbeldi gegn konum var einnig hluti hvunndagsins eins og hægt er að lesa úr máltæki þeirra ,,eiginkona sem ekki er flengd er eins og óbrýndur ljár.” Gift kona verður að hafa hár sitt sveipað slæðu en ógift stúlka varð að ganga berhöfða hvort sem var vetur eða sumar. Þegar karl talaði um konu sína forðaðist hann að nefna hana með nafni en lét nægja að segja ,,hún þarna” eða ,,hún sem er sem einnig er í hópi þjónustufólksins. Eiginkonan var álitin, líkt og börnin, fyrst og fremst ódýrt vinnuafl. Slíkar sögur geta verið sannar, en það er einnig hugsanlegt að einangrun þessarar þjóðar hafi komið af stað kynjasögum. Tröllasögur af Sömum, svo eitt dæmi sé tekið, eru af sama toga. Það sem við ekki þekkjum fær gjarna á sig mynd sem þarf ekki alltaf að vera sönn. Það dregur reyndar úr sannleikslíkum um ofbeldi gegn konum að þær voru jafnframt sagðar sjálfstæðar. Þær voru umtalaðar fyrir fegurð ekki síst konurnar frá bænum Zabie sem voru einnig umtalaðar fyrir pípureykingar sínar. Meðan Austurríkismenn fóru með völd yfir byggðum Husula voru þær gjarnan kallaðar ,,Parísardömur Karpatafjalla” Við hátíðleg tækifæri skörtuðu þær ennisbandi silburpeningum, lituðum glerperlum, kórónu eða ofnum linda settum eðalsteinum og páfuglafjöðrum, kórallahálsfesti, bróderaðri blússu og rauðum mjúkum sauðskinnsstígvélum. Söngkonan Ruslana, sem söng fyrir Úkraínu í söngvakeppni evrópskar sjónvarpsstöðva 2006, sem á rætur að rekja til Husula, vísaði mjög til þjóðlegra hefða þjóðar sinnar með klæðnaði sínum og takti. Langlúðrarnir í upphafsstefi lagsins eru eins og fjalalúðrar husulskra hirðingja.  

            Fegurð og sjálfstæði kvenna hafði einnig sína skuggahlið. Syfilis var t.d. faraldur meðal Husula um aldamótin 1900 enda þeir frægir fyrir frjálslegt ástarlíf. Í bók sinni Underliga folk i Europas mitt segir sænski ferðabókahöfundurinn og ævintýramaðurinn Gudtaf Bolinder, ekki laus við velþóknun, Husulakonur sem hann hitti hafi virst álíta það synd að hafna nánu samneyti við karla og að það virtist konum eðlilegt að gesturinn úr norðrinu veitti þeim unað í nokkra daga.

            Kona átti að eignast barn hvort sem hún var gift eða ekki. Að öðrum kosti myndi henni refsað handan þessa heims með því að neyðast til að éta þau börn sem henni hafði verið ætlað að eignast í jarðlífi sínu.

            Bolinder sagði stúlkurnar gjarnan syngja lög með textum líkan þessum: ,,Ég kvelst af höfuðverk og bakverk, ég verð að komast undir læknishendur en ekki til læknis sem skrifar lyfseðla. Þegar ungir Husulastrákar sýndu stúlku áhuga var viðkvæðið gjarna að hún væri ,,dobra na papas”, góð sem ferðarkostur.

            Í bókinni Führer durch Galizien frá 1914 segir það ekki óalgengt að feður ættu í kynferðislegu samneyti við dætur sínar og afar með afadætrum sínum. Faðir var sagður skuldbundinn að hlaupa í skarð sonar síns ef eiginkona sonarins eignaðist barn. Jafnvel þótt slíkar fullyrðingar séu ýktar stendur sú staðreynd að ungbarnadauði og fæðing þroskaheftra og mjög fatlaðra var hlutfallslega algeng í samfélagi Husula.

            Frægð Husulakarla var þó mest vegna þess sem nefnt var ,oprysjki, sem helst mætti þýða sem ræningi. Um þennan þátt lífs þeirra hafa skapast ótal þjóðsögur, frásagnir og söngvar.

            Í alþýðlegum munnmælum var þeim lýst sem eins konar karpatískri útgáfu af Hróa hetti en ástæður þess að slíkir ræningjahópar fyrst urðu til virðist öllu flóknari. Um miðja 18. öld þegar slíkt upplausnarástand ríkti í Póllandi, Ungverjalandi og Rúmeníu að fátækt alþýðufólk varð enn fátækara, flæmdust einnig Husular frá kotum sínum. Margir urðu daglaunamenn, farandverkamaenn eða handverkssveinar en aðrir leyndust í óaðgengilegum skógum fjallanna og drógu fram lífið með því að ráðast á póstvagna, kaupmenn og pólska stórbændur. Þegar þeir þóttust nægjanlega sterkir áttu þeir það líka til að ráðast á þorp og bæi.

            Á sjöund áratug 19. aldar reyndu Austurríkismenn að koma á herskyldu meðal Husula sem varð til þess að enn fleiri ungir menn flýðu til fjalla og fetuðu í fótspor þeirra sem þegar höfðu lagst í ránskap. Sá síðasti af þessari gerð ræningja var Nicola Sjuhaj. Hann mætti örlögum sínum 1921 þegar hann var myrtur ásamt bróður sínum af eigin liðsmönnum sem höfðu gengið á mála hjá tékknesku herlögreglunni. Tékkneski rithöfundurinn Ivan Olbracht skrifaði skáldsöguna Ræninginn Nikola Sjuhaj. Þar sem segir frá bóndanum sem neitaði að gegna herþjónustu og líkir honum við Hróa hött sinnar tíðar.

            Þekktastur allra husulskra ræningja var þó vafalaust Oleksa Doubouz sem fór fyrir ræningjaflokki upp úr miðri 18. öld. Hann var álitinn ósigrandi en var þó drepinn eftir að foringi annars ræningjaflokks tókst að skjóta hann í bakið úr launsátri. Við þetta verk notaði hann kúlu sem var sérstaklega steypt til verksins og blessuð af ekki færri en 12 prestum.

            Það var einkennandi fyrir karla af þjóð Husula að þeir höfðu axlarsítt hár, ofta smurt með smjöri, og með barðastóra flókahatta með band fléttað úr látúnsvír sem studdi við páfugls- eða arnarfjaðrir. Klæddir í skærrauðar buxur, prjónasokka í sama lit og leðursandala. Einkennandi fyrir Husulava klæði voru línskyrtur þeirra sem höfðu legið blöndu af bræddu smjöri og brennisteini. Þessi einkennilega blanda var reyndar óbrigðult ráð til að halda míflugum og öðrum óvelkomnum kvikindum frá þeim sem klæddist skyrtunni. Frakkar voru gerðir úr flókaull eða sauðarfeldi, með stóran kuta hangandi í breiðu belti og með velbrýnda öxi í hönd. Undantekningalaust voru Husular miklir hestamenn. Hinir smávöxnu hestar þeirra gætu styrkt þá tilgátu að Husular séu komnir frá steppum Asíu sem neyddust til að leita til fjalla. Dæmigert fyrir Husulana er þjóðlagahefð þeirra er ,,trembita”, allt að þriggja metra langur lúður, gerður úr grenitré vafinn bjarkarberki. Trembita Husula er ekki óskyld svissnesku alpahorni, en heldur minni og líkt og í Sviss er upphafleg notkun hornsins að auðvelda fjárhirðum samskipti langa vegu á milli fjalla og dala.

            Þótt fjárbúskapur með hirðingjasniði hafi þótt einkenna atvinnuhætti Husula voru þeir þekktir fyrir að vera færir fleytingamenn. Eftir fyrri heimsstyrjöld og fall Austurríska –ungverska keisaraveldisins má segja að staða Husula hafi breyst frá því að vera lítill minnihlutahópur í austurhorni stórveldis til þess að verða minnihlutahópur í vesturjaðri enn víðáttumeira stórveldis. Á valdaskeiði Sovétríkjanna neyddust þeir til að hverfa frá sínum hefðbundnu atvinnuháttum og gangast undir nauðung samyrkjubúskapar hvort sem var í akuryrkju eða skógarhöggi. Hefðbundin handiðn, vefnaður, útsaumur, málmsmíði og tréskurður auk keramíks með sitt sérstaka skreyti, allt þetta var verksmiðjuvætt og þjóðnýtt. Sama má segja um hina aldagömlu dans- söng- og klæðahefð. Listamenn á vegum ríkisins fengu það hlutverk að líkja eftir Husulum í söng, dansi og klæðaburði og skemmta ferðamönnum. 

            Híbýli Husula standa yfirleitt  dreifð í fjöllum og dölum í 700-1300 metra hæð. Lítil þorp eru til en þau eru flest mjög lítil með lágmarks þjónustumiðstöðvum. Íbúðarhúsin eru einnar hæðar bjálkahús með háreistu timburþaki. Langveggirnir eru lágir og gengið inn um dyr á framgafli. Skammt þar frá, innan hátibraðs gerðis, er aðskilið elhús, jarðhús, brunnur og fjós.

            Sóvétveldið dó en hefðbundin húsagerð og sjálfsvitund þeirra lifir. Stúarleg staða þeirra innan grísk-rómversku kirkjunnar hefur um langan aldur verið burðarvirkið í sjálfsvitund þessarar þjóðar. Eftir heimsókn Gorbatjovs til pávans 1991 var grísk-kaþólskri kirkju leyft að starfa frjálst innan Sovétríkjanna. Við þessi tímamót varð gríðarleg vakning um endurgerð og varðveislu gamalla húsa í byggðum Husula. Dæmigerðar trékirkjur þeirra sem minna á norskar stafkirkjur hefur að nýju verið breytt í guðshús eftir að hafa um áratugaskeið staðið eins og óhrjálegir skúrar eða verið notaðar geymslur eða í besta falli söfn.

           

 

Bojkar

 

Í skógivöxnum Karpatafjöllum við landamæri Póllands, Slóvakíu og Úkraínu eru heimkynni Bojka og Lemka. Hefðbundin heimkynni þeirra eru austan við ánna San á milli borganna Stry og Sambor í Úkraínu. ,,Höfuðborg” Bojka er smábærinn Synevidsko Vyzne.

            Mál þeirra er Karpata-úkraínsk málýska. Þeir kalla sig sjálfir ,,Werchowynci” fjárhirðana eða seljafólkið. Ekki er vitað hverjar rætur þessa fólks eru. Ein tilgáta er að þeir séu komnir af tatörskum og tyrkneskum stríðsföngum frá 17. öld sem Póllandskóngur kom fyrir á þessum afskekta stað. Það sem rennir stoðum undir tatarískar rætur er dökkur húðlitur og skásett augu. Sumir hugmyndaríkir fræðimenn hafa leitt getum að því að þeir væru afkomendur hinnar keltnesku stórþjóðar, Boiara, sem hafi á fyrstu öldunum eftir Krist, sest að í Karpatafjöllum þegar þeir höfðu aðlagað sig slavneskum nábúum. Sjálfir fullyrða þeir að nafnið ,,bojko” sé dregið af orðinu ,,bojkij” sem þýðir fimur og hugrakkur sem eru að sögn Bojka sterk einkenni í skepgerð þeirra. Hefðbundin búningur karla eru ljósgráar þröngar buxur og bróderuð skyrta og jakki með bláu applikeruðu munstri á heimaofið vaðmál, uppreimaðir sandalar og langur ullarfrakki. Konur klæðast á hátíðlegum stundum bróderuðum hörkjól og blárri svuntu. Dæmigerð hús þeirra eru lág bjálkahús með hálmþaki og reykopum í stað strompa. Bæir og þorp þeirra eru gjarnan við læki og ár í dölum og hlykkjast oft marga kílómetra eins og ormar.

            Húsdýrahald og akuryrkja eru hefðbundin störf þeirra en jafnframt eru bojkarnir hinir dæmigerðu farandsalar Karpatafjallanna. Um aldir fóru þeir um byggðirnar og seldu vörur til bænda en undir lok 19. aldar mynduðu þeir jafnframt eins konar samvinnufélög sem keyptu vínþrúgur, plómur, hnetur og kastaníur frá Ungverjalandi og seldu í Rúmeníu, suður Rússlandi og þeim hluta Póllands sem var á valdi Rússa.

            Rithöfundurinn Iwan Frankon fór um byggðir Bojka í byrjun 20. aldar og sagði að farandsala þeirra væri skipulögð í kerfi ,,frumkommúnisma” sem einnig lifði í þorpum þeirra. Hann lýsti einnig hvernig ,,nútíminn” ógnaði friðsömum lífsháttum Bojkana og vélarhljóð frá timbursögum kæfði óminn frá hjarðflautum í fjarlægum skógarlundum.

            Fram að skiptingu Póllands 18. öld voru heimkynni Bojka innan landamæra Póllands. Eftir að Póllandi var skipt upp á milli þriggja nábúa á seinnihluta 18. aldar  töldust heimkynni til Póllands Bojka til Austurríkis annars vegar og hins vegar Ungverjalands. Eftir fyrri heimstyrjöld lentu þeir á landi á mörkum Póllands og Tékkóslóvakíu. Við lok seinni heimstyrjaldar féll land þeirra undir Sovétríkin en nú teljast þau til sjálfstæðrar Úkraínu.

            Í heimildum frá um aldamótin 1900 var talið að um 100 þúsund Bojkar byggju í 140 bæjum. Óvíst er hversu mörgum hefur tekist að varðveita tungu sína og menningu á hálfri öld undir ráðstjórn.  Það er hins vegar víst að margir hafa þurft að aðlagast og samlagast Úkraínumönnum og Ruthenum en líklegt er að þeir muni krefjast aukinna réttinda, að rödd þeirra fái að heyrast, í framtíðinni líkt og Huzulerarnir, nágrannar þeirra í austri, hafa gert.

 

Lemkar

 

Vestan við ,,Bojkaland” taka við heimkynni Lemka. Þau teygja sig um Beskidafjöll og eru innan landamæra Póllands og Slóvakíu. Póllandsmegin ná heimkynni þeirra  Stary Sacz í Beskid Sadecki austur fyrir Komancza Bieszczadyfjöllum, þar með talið Beskid Niski. Póllandsmegin landamerkjanna kallast þeir Rusniaki eða Lemkowie og eru helstu byggðir þeirra eru bæirnir Sjanig og Krynica um 100 km. fyrir austan Zakopane.  Sunnan megin Karpatafjalla kallast þeir Lemaki eða Rusini. Nafnið Lemki er sagt dregið af því hversu mjög þeir nota orðið ,,lem” sem þýðir bara. Líkt og Bojkarnir tala þeir ruthenska (úkraínska) málýsku sem mun vera flestum Ruthenum ill- eða óskiljanleg. Saga Lemka í þessum fjallahéruðum (Lemkovshchizna) virðist ekki ýkja gömul. Á 15. og 16. öld hófu hirðingjahópar að setjast að í fámennum eða óbyggðum og einangruðum dölum suður Póllands. Þetta fólk var blanda austur Slava og Vlaca (Rúmena). Þeir fluttu með sér fábreytta atvinnuhætti fjárbúskapar og siði frá Vlöcum og Slövum, auk Býsantískrar (grísk kaþólskrar) kristni. Á næstu öldum bjuggu þeir á áhrifasvæði ýmissa nábúa; Pólverja, Slóvaka, Ungverja og Þjóðverja, en ekki vegna þess að þeir hafi verið á faraldsfæti. Lítt var þó hirt um þetta fólk í alda raðir eftir að það settist að í óaðgengilegum héruðum Karpatafjalla og austur í Poka Djöfulsins eins og Pólverjar kalla krikann á milli Úkraínu og Slóvakíu.

            Lemkar hafa lengi verið þekktir fyrir fastheldni sína á siði og venjur. Þeir hafa varðveitt fram á þennan dag sérstaka brúðkaups- og skírnarsiði og samkvæmt hefð eru allir strákar snoðklipptir þegar þeir verða sjö ára. Þegar kemur að sérkennilgum þjóðbúningum þeirra hafa þeir líka farið aðrar leiðir en nágrannarnir. Konurnar klæðast litríkum kjólum og eru þá í rauðum eða gulum stígvélum. Hefðbundinn búningur karla er hinn svokallaði ,,tuga” hælsíður frakki skreyttir með kögri. Þar eð átthagar Lemka eru afskekkt fjallahéruð hafa þeir þurft að leita sér að vinnu utan heimahéraðs. Á vorin fóru bæði karlar og konur niður á sléttlendið að vinna við landbúnaðarstörf en þegar hausta tók sneru þau við heim til fjalla. Lemkar þóttu og dugmiklir búfjárkaupmenn og á þeim árum þegar Austurríkismenn réðu þar stunduðu þeir slíka kaupmennsku allt til Mæris og Vínar.

            Á tímabili átthagafjötra og þrælahalds voru þeir formlega undir yfirráðum Pólverja, rómversk kaþólskrar kirkju eða einstakra borga, en þeim tókst að halda í takmarkað frelsi. Þegar þrýstingurinn varð of mikill tóku Lemkar upp lifnaðarhætti sem líktist helst þeim sem  Hrói-höttur er sagður hafa stundað. Miklar þjóðbrautir á milli Ungverskra borga og Póllands lágu um fjallaskörð þar sem Lemkar bjuggu og gerðu þeim auðvelt fyrir að stunda slík störf. Á 15. og fram á 18. öld virðist efnahagur fjallabúa,sem stunduðu sauðfjarrækt, smáakuryrkju, léttan handiðnað og bíflugnarækt,  hafa varið með ágætum.

            Flestir Lemkar, beggja vegna fjallgarðsins, teljast til grísku rétttrúnaðarkirkjunnar og hafa að mestu fengið að halda henni óáreittir.

Við skiptingu Póllands féllu Lemkar undir Austurríki og um svipal leiti fór að halla undan fæti í lífi fjallaþjóðarinnar. Fólki fjölgaði og kreppa tók að sauðfjárbúskap. 19. öldin varð tími fátæktar og versnandi lífskjara. Á seinni hluta aldarinnar fór að bera á aukinni þjóðernisvitund í fátækum þorpum. Afnám þrælahalds, tilraunir Austurríkismanna til að egna saman Úkraínumenn og Pólverja, allt hafði þetta áhrif á stöðu Lemka. Jafnframt er hægt að leiða líkur að því að útsendarar Rússasars hafi heimsótt þorpin og reynt að vekja íbúanna til vitundar um frændsemi sína við Moskvuvaldið. Æ meira rót komst á friðsamar byggðir og æ fleiri tóku staf sinn og hatt og flúðu ofsetta dali til Vesturheims, iðnaðarborga í Austurríki eða Þýskalandi.

            Í byrjun 20. aldar töldust Lemkar vera álíka margir og Huzular og Bojkar, eða um 100 þúsund. Fyrri heimstyrjöld reyndst Lemkum afdrifarík ekki síst vegna stórorusta sem voru háðar í fjallaskörðum í byggðum þeirra, einkum á því svæði sem nefnist Beskid Niski. Báðir stríðsaðilar þrýstu á Lemka, Austurríkismenn með því að höfða til löghlýðni og trúnaðar við stjórnvöld en Rússar með því að höfða til frændsemi tveggja slavneskra þjóða og sameiginlegra trúarbragða. Austurríkismenn tóku fjölda grunaðra stuðningsmanna Rússa höndum og héldu þeim í Talerhof fangabúðunum. Margir Lemkar flúðu líka til Rússlands þegar hersveitir Rússa urðu að hörfa úr Karpatafjöllum. Bæði Rússar og Austurríkismenn töpuðu stíðinu, hvort með sínum hætti, en við það vandaðist staða Lemka. Voru þeir Pólverjar? Eða voru þeir Úkraínumenn? Voru þeir hugsanlega Slóvakar? Voru þeir kanski bara þeir sjálfir? Kirkjan gat ekki svarað spurningunni um trúarlega hérvist þeirra þar sem þeir töldust til grísk kaþólsku kirkjunnar og þar með ekki til þjóðlegrar kirkjudeildar. Reyndar lýstu Lemkar yfir stofnun lýðveldis árið 1919, en það varð skammlíft enda Pólverjum tiltölulega létt verk að kæfa það í fæðingu.

            Fólksfluttningarnir héldu áfram og þegar Pólland fékk sjálfstæði og pólska lýðveldið var stofnað árið 1918 kusu margir Lemkar að flytja norður-austur á bóginn. Þeir settust gjarnan að á svæðum við borgirnar Lvov og Tarnopol sem báðar voru pólskar þegar hér var komið sögu. Margir þeirra samlögðuðust pólskri menningu og tóku upp pólska siði og tungu.

            Á millistríðsárunum þjónuðu Lemkar í pólska hernum en voru að öðru leyti að mestu látnir í friði. Þeir áttu þó í nokkrum innbyrðis átökum af trúarlegum og pólitískum toga. Svo langt gekk jafnvel að hópar rómversk kaþólskra börðust grísk kaþólska með kylfum og ... Pólitískur þáttur þessara átaka var sá að þeir sem fylktu sér undir merki rómversk kaþólskunar fylgdu Pólverjum að málum hinir rétttrúuðu voru hallir undir Úkraínu. Hin rómversk kaþólska kirkja hafði sterk ítök meðal íhaldsamra smábænda sem var launuð hollustan með barnaskólum þar sem kennt var bæði á pólsku og lemko.

            Við innrás Þjóðverja 1941 biðu margra þeirra eins og annarra örlög þræla í þýskum fabrikkum eða dauði. Ef þeir lifðu af næstu þrjú árin var vísast að að þeirra biði annað hvort ferð til gúlagsin, brottrekstur til Póllands eða útlegð eitthvað annað. 

            Þeirra sem ekki fóru úr afskekktum heimabyggðum sínum biðu erfiðleikar sem voru ekki minni en hinna sem fóru. Vandræði þeirra hófust þó ekki fyrir alvöru fyrr en eftir síðari heimstyrjöld. Meginástæða þess var sú að á árum seinni heimstyrjaldar höfðu skæruliðasveitir úkraínskra þjóðernissinna aðalstöðvar sínar í  heimahéruðum Lemka. Þeir voru þess vegna samsamaðir uppreisnarmönnum úkraínskra þjóðernissinna og voru fluttir til Úkraínu og jafnvel til þess svæðis í Póllandi sem áður hfaði fallið undir hið þýska Austur-Prússland. Sumir þeirra börðust með úkraínskum fasistum í stríðinu og að því loknu þurftu allir að gjalda fyrir það með aðgerð sem átti sér stað í apríl 1947 og var kölluð Aðgerð Visla (operation Vistula). Svo til allir voru fluttir nauðugarflutningum til Úkraínu. En Gomulka aðalritari pólska kommúnistaflokksins átti Lemkum skuld að gjalda síðan í stríðinu og greiddi skuld sína með því að hann leyfði þeim að snúa aftur á 7. áratug 20. aldar.

            Til að gera illt verra og auka enn frekar á óhamingjuna voru dæmigerðir Lemkabæir Slóvakíumegin landamæranna, bæir sem minntu á bæi Bojka, innlimaðir í samyrkjubú. Í stað sjálfstæðra smábænda komu nú landbúnaðarverkamenn samyrkjubúa. Líf landbúnaðarverkamannsins skiptist á milli vinnu og heimilis, en líf bóndans er eitt, líf búandans. Með þessu jókst enn frekar hraði samlögunar Slóvaka og Lemka sem þegar var hafin enda hafa Lemkar ávalt fundið til skyldleika með Slóvökum en litið fremur á Pólverja sem keppinauta.