Sorbar

 

Vjer Christian hinn Tíundi, af guðs náð Danmerkur konungur, Vinda og Gauta, hertogi í Sljesvík, Holtsetalandi, Stórmæri, Þjettmerski, Láenborg og Aldinborg, Gjörum kunnugt...

 

Áin Spree líður lign í gegnum Berlín höfuðborg Þýska sambandslýðveldisins. Í upphafi 13. aldar þegar þýska riddarareglan sem kenndi sig við heilaga jómfrú var að hefja krossferð sína á hendur Prússum og Litháum, stóðu tvö friðsæl þorp á aðliggjandi eyjum í ánni. Þau hétu Berlín og Cölln. Í þann tíð voru ár og fljót í senn matarkistur og hentugustu samgönguæðar, lífæðar samfélaga. Fólk stundaði fiskveiðar, og búskap, ræktaði korn, hör og hélt búfé. Verslun með hörklæði og vaðmál jókst og íbúum fjölgaði. Borgarréttindi fengu þorpin tvö árið 1230 sem fólk gat þakkað samstarfi íbúa eyjanna tveggja við að stjórna siglingum þar um kring og ekki síst ötulli kaupmennsku. Sameining sveitarfélaga var verkefni þá sem nú og hvernig sem menn fóru að því þá er víst að borgirnar Berlín og Cölln sameinuðust. Nafnið Berlín lifði en borgin Cölln gleymdist flestum. Enn má nýta sér ána til ferðalaga hvort sem er frá einum borgarhluta til annars eða frá einum landshluta til annars.

Við skulum ímynda okkur að við siglum eftir ánni í suð-suð austur í átt að landamærum Tékklands. Borgin er brátt að baki og við taka akurlendi sambandsríkisins Brandenburgar. Þegar við nálgumst borgina Cottbus(Chośebuz)eru vegvísar við vegi æ oftar á tveim málum, þýsku ofar og með smáu letri neðar er tekstinn flestum ferðalöngum ókennilegur. Landið hér er skógi vaxið og votlent og þykir henta sérdeilis vel til gúrkuræktar, enda gúrkan eins konar eins konar tákn hér um slóðir. Við erum komin til Spreewald í Neðri Lausitz, lands Sorba. Fáum kílómetrum sunnar er líka land Sorba en hér er það hluti af sambandríkinu Saxlandi og nefnist Efri Lausitz. Það er þjóðinni sem hér býr sem við viljum kynnast í þessari ferð. Þjóð Sorba, afkomendum hinna fornu Vinda og fámennustu þjóð í fjölskyldu Slava.

Undir lok 10. aldar byggðu norrænir Jómsvíkingar bækistöð, Jómsborg, á landi Vinda, eynni Wolin í mynni Óderfljóts. Í Jómsvíkingasögu segir að þeir hafi ráðist gegn Hákoni Jarli árið 986.[1] Við lát Hákonar jarls tók Ólafur Tryggvason við og hann átti eftir að styrkja tengsl Norðmanna og Vindu. Ólafur giftist Geiru dóttur Búrisláfs (Bogislav) konungs af Vindlandi og réð, ásamt henni, yfir nokkrum hluta Vindlands þau þrjú ár sem hún lifði. Eitthvað voru þegnarnir hafa verið þeim Geiru erfiðir því fyrsta vetur Ólafs í Vindlandi fór hann ,,til þeirra héraða þar á Vindlandi er legið höfðu undir Geiru drottningu og höfðu þá undan horfið allri hlýðni og skattgjöfum þannug. Þar herjar Ólafur og drap marga menn, brenndi fyrir sumum, tók fé mikið og lagði undir sig þau ríki, fór síðan aftur til borgar sinnar.“[2] Þegar Geira lést festi henn ekki yndi á Vindlandi og réðst í hernað til Fríslands, Saxlands og allt til Flæmingjalands.[3] Samskiptum Norrænna manna og Vindu voru fjarri því úr sögunni þótt Ólafur gæfi frá sér ríki sitt í sorg sinni. Árið 1043 þótti Magnúsi Ólafssyni Noregskonungi og jarli af Jómsborg, Vindur vera farnir að hverfa frá hlýðni við sig. Konungur bauð þá út skipaher og hélt um sumarið til Vindlands. ,,En er Magnús konungur kom til Vindlands þá lagði hann til Jómsborgar og vann þegar borgina, drap þar mikið fólk en brenndi borgina og landið víða út í frá og gerði þar hið mesta hervirki.“[4]

Saga Heimskringlu af samskiptum Norrænna manna og Vindu er saga landvinninga og manndrápa. En hún er líka saga friðsamra samskipta ólíkra menningarsamfélaga og ekki endilega blóði drifinna. Aðallega er hún þó saga sóknar kristninnar inn í norðan- og austanverða Evrópu á hámiðöldum. Sú sókn breytti lífi Vinda eins og annarra samfélaga á þeim slóðum. Hinn nýji siður sótti fram úr suðri til norðurs, úr vestri til austurs borinn fram af ákafa og fortölum trúboða og ef það dugði ekki þá með vopnaglamri og herópum. Útbreiðslu kristninnar og undirliggjandi hugmyndafræði má með nokkrum rökum líkja við þá tilraun sem nú stendur yfirga pólitíska og efnahagsle, að efla einingu Evrópuþjóða. Vesturslavneskar þjóðir gengu ekki samtíga til móts við hinn nýja sið. Pólverjar gerðust kaþólskir nokkru fyrir aldamótin 1000 (árið 966), fyrstir vesturslava. Eftir að danskir og norskir konungar tóku trú voru þeir áfram um að boða nágrönnum sínum orðið og nutu liðsinnis þýskra krossriddara. Þannig voru t.d. hinir vindísku Vagríar, sem bjuggu við strönd Eystrasalts milli Kílar og Lübeck, neyddir til trúskipta á árunum 1140-1143. Áður en varði hafði menning þeirra samlagast menningu hinna þýsku sigurvegara og fátt eftir sem minnti á samfélag þeirra annað en nokkur örnefni. Þýska borgin Lübeck er þar sem áður var borg sem Vindar nefndu Liubice.

Knútur I. konungur Dana 1182-1202 var ekki mikill herstjórnandi en það var Absalon biskup. Á hvítasunnu árið 1184 réðst floti Absolons gegn Vindum við eyna Rügen. Danir neyttu færis í dimmri þoku og þegar Vindur urðu þeirra varir brást þeim kjarkur og gáfust upp án þess að veita viðnám svo heitið gæti. Þeir sem gátu syntu til lands og flýðu til skógar, aðrir drukknuðu eða voru höggnir. Herfang Dana var mikið og sögur hins frækna sigurs náðu alla leið til Miklagarðs. Þrem árum síðar gengu síðustu foringjar Vinda Knúti á hönd sem nefndi sig konung Dana og Vinda upp frá því, ,,De danskers og venders konge “. Svo gerðu arftakar hans allt til ársins 1972.

Um miðja 16. öld ögraði Gústaf Vasa af Svíþjóð hinum konungborna danska erkifjanda sínum og kallaði sig líka konung Vindu. Hugsast getur að ósvífni Svíakonungs hafi valdið einhverjum titringi meðal Dana en af hlutust þó ekki átök, enda kannski að vonum. Samfélög Vinda voru að mestu horfin og orðið Vindur ekki lengur samnefnari lifandi samfélaga heldur aðeins orð frá fortíð sem flestum var gleymd. Þótt Vindur hafi horfið og áhugi króníkuskrifara á þeim líka, geymdist nafn þeirra um aldir í titlum sænsku og dönsku konunganna.

Danir fengu ekki að njóta sigurs yfir Vindum lengi. Á árum Valdimars Sigurvegara biðu þeir í lægri hlut fyrir Þjóðverjum og urðu að láta lönd Vinda af höndum. Germanir gengu rösklega fram og höfðu brátt lokið ætlunarverki sínu. Vindur voru ýmist drepnir eða gengnir Guði, góðum siðum og hinum þýsku sigurvegurum á hönd og orðnir skattskyldir undirsátar. Þegar þeir voru orðnir þegnar kristinna nágranna dvínaði áhugi hinna skiftlærðu á þeim og þeir hverfa að mestu leyti líkt og jörðin hafi gleypt þá.[5] Örlög þeirra urðu þau sömu og hinna fornu baltnesku Prússa, að falla í orustum eða að hverfa í þjóðahaf kristinna. Þar með fór sennilega menning og saga samfélaga og fátt eftir annað en brotakenndar sagnir skráðar af sigurvegurunum. ,,Sennilega“ er hér notað af þeirri ástæðu að til eru þjóðir sem rekja rætur sínar til hinna fornu Vinda.  Þessar þjóðir eru Kasjúbar í norður Póllandi Kaszëbskó og Sorbar í austur hluta Þýskalands, Lausitz, svæði sem markast af ánni Spree í norðri og Luzitaníufjöllum (Mittelgebirge) í suðri. 

 

Hvaðan og hvenær?

 

Hverfum nú að Sorbum, eða ,,Wenden”, eins og Þjóðverjar nefna þá. Það gildir hið sama um Sorba og flestar aðrar ,,örþjóðir“ að nákvæmar tölur um fjölda þeirra liggja ekki á lausu. Sennilega er fjöldi þeirra einhvers staðar nálægt 60.000. Þrátt fyrir að fé og fyrirhöfn hafi verið varið í að styrkja og efla sorbneska tungu og menningu hefur hvortveggja átt á brattan að sækja.

Reyndar er sorbneska er ekki eitt óaðgreinanlegt tungumál og siðir Sorba ekki einsleit heild. Sorbneska er samheiti tveggja skýrt aðgreindra mállýska sem sprottnar eru af einum meiði og á mörkum málsvæðanna eru svo ýmsar mállýskur. Há-Sorbar eru flestir kaþólskir og búa í sambandsríkinu Saxlandi nærri tékknesku landamærunum, flestir austan við borgina Kamenz (Kmjenz). Átthagar Lág-Sorba eru í sambandsríkinu Brandenburg, kringum borgina Cottbus við pólsku landamærin. Mál þeirra er undir sterkum pólskum og þýskum áhrifum og stendur svo höllum fæti að það má kallast deyjandi tungumál. Mál Há-Sorba er undir sterkum tékkneskum áhrifum og stendur fastari fótum en bræðra þeirra í Brandenburg.

Sennilega hafa Sorbar komið til Evrópu með hinni miklu bylgju þjóðflutninga á 5.-6. öld. Víst er að þeir höfðu sest að við ána Saxelfi fyrir miðja sjöundu öld.[6] Þjóðflutningarnir leiddu til hruns Vest-rómverska ríkisins. Þjóðir hurfu og skildu eftir sig mis mörg og djúp spor. Aðrar brutust fram yfir akra og heiðar, óðu ár, ösluðu mýrar og ruddust um skóga þar til þær birtust á sviði evrópskrar sögu. Skyldar þjóðir runnu saman og mynduðu samfélög, byggðu eina heildstæða menningu og með tímanm það sem við nefnum ríki.

Á þeim slóðum þar sem nú heitir Spreewald og Cottbus, bjuggu Lusizierar. Þar fyrir sunnan, þar sem nú er borgin Bautzen (Budyšín), bjuggu Milzenar. Sennilega eru Sorbar afkomendur þessara og ef til vill fleiri þjóða af ætt Vinda. Víst er að í meira en 1200 ár hefur þjóðin verið nefnd Sorbar. Í frönskum annál frá árinu 806 er talað um slava sem nefnast Sorbar og sem eiga heimkynni við fljótið Saxelfi. (terra sclavorum, qui dicuntur Sorabi, qui sedent super Albim fluvium). Sjálfir nefna þeir sig ,,Serby“ án þess þó að vilja gera of mikið úr skyldleika sínum við Serba, hina suður slavnesku frændþjóð. Fornleifarannsóknir benda til þess að áar þeirra hafi frá fyrstu tíð verið bændur, búið í smáum samfélögum, litlum þorpum, þar sem lítill munur var á fólki. Umhverfis voru varnargarðar af tré og torfi.

Á fyrri hluta 10. aldar voru Sorbar yfirbugaðir af Germönum og allt síðan þá hafa þeir verið undir stjórn Þjóðverja að undanskildum þeim fáu árum í kringum árið 1000 sem pólski hertoginn Bolesław Chrobry ríkti yfir þeim. Um skamma stund breyttist nafn og þjóðerni stjórnarherranna en að öðru leyti varð lítil breyting á högum þeirra. Þeir voru eftir sem áður átthagabundnir bændur sem bar að geiða veraldlegum höfðingjum skatt, hvort sem þeir voru þýskir eða pólskir. Um þetta leyti sameinuðust þýskir, norrænir og pólskir ráðamenn um að skapa einsleita Evrópu og koma á sameiginlegum grunni sem samskipti þjóða gætu hvílt á, kristinni trú. Brátt kom að því að ofan á skattinn til veraldlegra höfðingja, bættist tíund til kirkjunnar. 

Á 10. og 11. öld hélt þýsk framrás í austurveg áfram en að mestu átakalaust. Landtökumenn reistu varnarvirki á hernaðarlega mikilvægum stöðum og áður en langt um leið var þar risið samfélag þýsks aðals, handverksmanan, bænda og kaupmanna. Hin smáu sorbnesku þorpasamfélög hurfu inn í þýska bæi og síðar borgir og með tímanum hurfu sérkenni þeirra eitt af öðru. Réttarkerfið hafði einnig þýðingu. Framan af voru bændur dæmdir samkvæmt slavneskum rétti sem var strangari en þýskar réttarvenjur. Af því leiddi að Sorbar sáu hag í því að í málum þeirra yrði dæmt samkvæmt þýskum lögum. Í borgum lék aldrei neinn vafi á eftir hvaða lögum skyldi dæmt. Þar giltu þýsk lög. Sókn og vörn fór fram á þýsku. Þýskur réttur og þýkst mál leysti slavnesk lög og tungu af hólmi, jafnvel í sveitunum. Á 13. öld settust æ fleiri þýskumælandi að á landi Sorba í Lausitz. Þeir ruddu skóga, ræktuðu tún og byggðu þorp. Þeir nutu ýmissa fríðinda umfram átthagabundna frumbyggja, þeir fengu stærri lönd, nutu meira frelsis og greiddu lægri afgjöld til lénsherra.

Yfirráð Germana yfir Sorbum Saxlandi liðu undir lok á 14. öld þegar Lausitz varð hluti af hinum tékknesk-þýska Bæheimi.  Það varð sennilega menningu Sorba til lífs. Í Bæheimi komu saman þýskir, tékkneskir og gyðinglegir menningarstraumar. Aðallinn var þýskur en almúginn að miklu leyti tékkneskur eða gyðingar.  Þótt hin þýska yfirstétt væri valdamikil í samfélagi Sorba lét hún menningu þeirra í friði og sagði henni ekki stríð hendur. Engu að síður var Sorbum ýmis takmörk sett líkt og öðrum sem ekki tilheyrðu þýska aðlinum.

 

Nýöld

 

Tímabilaskipting sögunnar er ekki alltaf einföld eins og flestir Evrópumenn reka sig á þegar þeir vilja tímasetja lok miðalda og upphaf nýaldar. Það er reyndar mjög skiljanlegt að þessi mörk séu ekki skýr. Það hefur aldrei verið gert samkomulag um að draga strik á milli tímabila líkt og gert var þegar Evrópumenn skiptu á milli sín Afríku. Þar að auki eru vestur evrópsk tímabilaskipting sjálfhverf, bundin við eigin menningarheima en ekki annarra heimsálfa. Evróðumenn setja mörkin einhvers staðar kringum aldamótin 1500 og benda á ýmis atriði því til stuðnings svo sem landtöku Kólumbusar í vesturheimi, trúarhræringar og klofning kaþólsku kirkjunnar, fæðingu endurreisnar og húmanisma og fall Austrómverska ríkisins. Íslendingar hafa skilin einföld og skýr. Í tíma markast þau af aftöku Jóns Arasonar og tveggja sona hans 7. nóvember 1550. Í rúmi liggja þau á höggstokknum við bakhlið Skálholtsdómkirkju. Víst er að Sorbar hafa ekki, frekar en aðrar Evrópuþjóðir, jafn ákveðna vissu og Íslendingar um það hvar miðöldum lauk. Þótt mörkin séu ekki jafn skýr marka trúarróstur  15. og 16. aldar skil á milli þýðingarmikilla kafla þjóðarsögunnar. Þau marka ekki aðeins skil á milli búks og höfuðs kaþólskunnar heldur á milli búks og höfuðs þjóðarinnar. Skilin á milli Há- og Lág-Sorba urðu greinilegri en áður og fá á sig trúarlegt yfirbragð.

            Siðbreyting Lúthers á fyrrihluta 16. aldar olli nokkrum tímamótum í lífi þessarar fámennu þjóðar. Það var reyndar ekki fyrir frumkvæði Lúthers sem hafði lítið álit á Sorbum og menningu þeirra, kallaði þá ítrekað í stólræðum, úrhrök annarra þjóða (die schlechteste aller Nationen). Það var því þrátt fyrir, en ekki vegna, Lúthers sem ýmsir Sorbar kusu að fylkja sér undir merki hins nýja siðar.

            Sættargerðin í Augsburg 1555 á milli kaþólskra og mótmælenda styrkti sorbneska mennigu enn frekar. Hún fól í sér að þegnum bæri að lúta sömu trú og þjóðhöfðinginn, að trú hans yrði trú þegnanna. ,,cuius regio, eius religio“. Héraðshöfðingjarnir í átthögum Sorba gengu siðbreytingu Lúthers á hönd og fyrir Sorba fól þetta í sér menningarleg straumhvörf. Ef hinn nýi siður átti að vinna fótfestu meðal alþýðufólks varð boðunin að fara fram á sorbnesku. Ein meginstoð lúthersk siðar var að fólk ætti að vera í beinu sambandi við guð og lesa guðsorð án túlkunar annarra. Árið 1538 voru fyrstu prestarnir af þjóð þeirra útskrifaðir í Wittenberg. Þegar hér var komið sögu áttu þeir sér ekkert ritmál. Boðun orðsins kallaði á ritmál og 1548 var Nýja testamentið þýtt á sorbnesku. Lestrarkunnátta, að geta lesið á móðurmálinu, varð því enn brýnni en áður. Sorbar, eins og aðrir, þurftu því að taka við guðsorði í stólræðum sorbneskra presta og vera færir um að lesa ritninguna. Þeir þurftu að geta skilið hvortveggja talað orð og ritmál sem boðaði þeim fagnaðarerindið. Siðbreytingin náði því bestri fótfestu í þeim byggðum Sorba þar sem almenn menntun var útbreiddust, fyrst og fremst í borgum. Í sveitunum var ólæsi almennt og þýskukunnátta engin. Siðbreytingin hélst í hendur við nýjar áherslur í menntamálum, að auka almenna lestrarkunnáttu. Um miðja 16. öld var svo komið að flestir Sorbar, bæði í efri- og neðri Lausitz, gengnir kenningum Lúthers á hönd. Það var helst alþýðufólk í sveitum Efri-Lausitz sem fór á mis við lestrarmenntun og hinn nýja sið.

            Árið 1574 kom út fyrsta sorbneska bókin, fyrir utan nýja testamentið. Sú hafði að geyma sálma og litla spurningakver (katekismus) Lúthers. Reyndar er elsta skjalið á hásorbnesku, sem vitað er um, frá árinu 1532 ,,Das Burger Eydt Wendisch”, (borgaraeiður  Bautzen).

30. ára stríðið

Þrjátíuára stríðið 1618-1648 var einhver grimmilegasti hildarleikur evrópskrar stríðssögu. Meginvettvangur þessara átaka var hinn þýskumælandi hluti álfunnar. Herjir sóttu ýmist fram eða hopuðu, rændu sér til matar, drápu og nauðguðu án þess að slíkt væri talið til tíðinda. Hvar sem herfylki fóru um lágu eftir dauðir og særðir, brunnin þorp og eyðijarðir. Óviðráðanlegar farsóttir blossuðu upp. Ofan á allt bættist svo galdrabrennur.  Samfelld skálmöld í Evrópu og hvergi var eyðileggingin og mannleg grimmd meiri en þýskum svæðum hins Heilaga rómverska ríkis, þ.á.m. á slóðum Sorba.[7] Þeir voru hraktir frá heimilum sínum, látnir borga þunga stríðsskatta og máttu þola mikið mannfall af völdum sjúkdóma. Á undangengnum öldum hafði sorbnesku þjóðinni fjölgað, en 1618-1648 fækkaði henni um helming, í sumum héruðum enn meira. Í lok stríðsins hafði hönd dauðans farið yfir fjölda sveita og þorpa þar sem áður voru blómleg samfélög Sorba. Þegar uppbygging hófst á nýjan leik fór hún saman við ákveðnar tilraunir til að gera samfélögin þýsk. Þessi tilraun til að eyða menningu og tungu Sorba var leidd af lútherskri kirkju. Þjóðverjar fengu landið og byggðir Sorba urðu landluktar eyjar í þýsku hafi. Hins vegar brugðust Sorbar við með aukinni áherslu á að varðveita tungu sína og eftir miðja 17. öld hófst mikið blómaskeið í notkun ritmáls á sorbnesku. 1650 var gefin út sorbnesk málfræði eftir prestinn JanChojnan sem leitaðist við að samhæfa skrifmál og tungumál. Í fljótu bragði mætti ætla að betri tíð væri framundan. Það liðu þó aðeins 17 ár þar til stjórnvöld í Brandenburg fyrirskipuðu að brenna skyldi allar bækur á tungu Sorba og hætta að halda guðþjónustur á sorbnesku. Á næstu áratugum beittu stjórnvöld sér fyrir marg endurteknum ofsóknum á hendur Sorba sem tóku til varna. Í Neðri Lausitz voru sorbneskar messur úr sögunni, en annars staðar í byggðum Sorba ríkti skálmöld.

Þó 30. ára stríðinu lyki var þar með ekki sagt að friður væri kominn á í Evrópu. Reyndar var 17. öldin sérdeilis róstursöm, viðburðarík og grimm. Hún var öld trúardeilna, galdrafárs, landvinninga í vesturheimi og þrælaverslunar. Helstu stórveldi meginlandsins, sem öll gerðu tilkall til aukinna áhrifa voru voru að efla miðstýrða stjórnsýslu og her. Hið Heilaga rómverska ríki, bandalag stórra og smárra ríkja, furstadæma og borga sem teigðu sig yfir þann hluta Evrópu sem nú er Þýskaland, Austurríki og Tékkland, var að liðast í sundur. Nútíma ríkið var að fæðast. Þeirra fremst voru: Austurríska Habsborgaraveldið, bandalag Prússa og Brandenburgar undir forystu Hohenzollern ættarinanr, Frakkland, Bretland og jafnvel Svíþjóð varð skammlíft stórveldi í 30 ára stríðinu. Karl X. var ekki fyrr orðinn konungur Svía en herjir hans réðust inn í Pólland,  Þýskaland og Danmörk og skildu eftir sig sviðna jörð. En sænska stórveldið varð ekki langlíft. Á fyrsta fjórðungi 18. aldar lét her Karls XII. í minni pokann fyrir Pétri mikla Rússasar. Þar með hafði slavneskt stórveldi stigið inn á svið evrópskrar sögu. Í stjórnartíð Péturs óx Rússum ásmegin og urðu eitt af stórveldum álfunnar. Frakkar voru framan af öldinni í sárum vegna átaka milli kaþólskra og mótmælenda en undir loka aldarinnar báru þeir ægishjálm yfir önnur stórveldi. Tyrkneskir Ottómanar sem höfðu verið í stöðugri sókn inn í Evrópu frá því á 15. öld og í sumarið 1683 voru þeir komnir að Vín. Eftir tveggja mánaða umsátur um borgina voru þeir sigraðir. Þar var kominn konungur Póllands, Jan III. Sobielski með mikinn her. Þá var pólska ríkið það stærsta í Evrópu.

Pólverjar, sem ekki státa af mikilfenglegri stríðssögu, telja bardagann við Vín til sinna mestu afreka á því sviði. Það er þó með blendnum tilfinningum sem þeir minnast þessa frækna sigurs því tæpri öld síðar launuðu Austurríkismenn fyrir sig með því að taka þátt í  að þurrka Pólland út af evrópsku landakorti. 1772-1795 hlutuðu Austurríkismenn, Rússar og Prússar, hið stóra en veika ríki í sundur. Það hvarf af kortinu 1795 og átti ekki afturkvæmt næstu 123 árin, fyrr en 1918. Hinir þýsku Prússar voru að eflast og þegar þeir höfðu sameinast Brandenburg voru þeir orðnir lang öflugastir í fjölskyldu hinna mörgu þýsku ríkja. Þýska þjóðríkið var að fæðast.

 

19. öldin, rómantík og þjóðernisvakning

 

Þjóðernishyggja 19. aldar sameinaði þjóðir og sundraði ríkjum. Fjölþjóðleg ríki eins og Auturríska Ungberska keisaradæmið og Ottómanaveldið urðu fórnarlömb sömu þróunar og sameinaði Þjóðverja. Þýska ríkið varð til 1871, Austurríska keisaraveldið og Ottómanaveldið hurfu eftir að fyrri heimstyrjöld lauk 1918. Með sameiningu Brandenburgar og Prússa urðu Sorbar í neðri hluta Lausitz í reynd prússneskir þegnar, flestir átthagabundnir smábændur í sveitum. Stórbændurnir voru hins vegar þýskir eins og nánasta þjónustulið og nánustu samstarfsmenn. Það skiptir svo verulegu máli að í hinu ný-sameinaða ríki var ríkjandi lútherskur siður og kirkjan undir forræði þýsks veraldlegs valds en ekki alþjóðlegs eins og kaþólska kirkjan. Sorbar voru bændur, í meirihluta í sveitum en aðeins þriðjungur bjó í þéttbýli. Prússar unnu markvisst að sameiningu þýsku ríkjanna, sem þeim tókst um síðir 1871. Liður í þessari sameiningarbaráttu var að draga úr hvers konar menningarmun innan yfirráðasvæðis þeirra. Þeir vildu með öðrum orðum eyða hvers konar menningarlegu litrófi í ríkinu, þ.á.m. menningu Sorba.

Með frönsku byltingunni 1789 og hernaði Napoleons á fyrstu árum 19. aldar urðu vatnaskil í Evrópu. Þrátt fyrir að herjir Napoleons hafi beðið lægri hlut, unnu hugmyndir frönsku byltingarinnar sér sess í evrópskri vitund og sitja þar enn sem fastast. Ein afleiðing Napoleonsstyrjaldanna var að Ísland varð lýðveldi um tveggja mánaða skeið sumarið 1809, án þess að hafa beðið um það og án þess að orðið lýðveldi væri til í orðaforða landsmanna.[8] Á Vínarfundinum 1815, sem kallaður var saman af sigurvegurunum í þeim tilgangi að koma á stjórnfestu í hinni stríðshrjáðu álfu, skiptu lönd, héruð, þjóðir og þjóðabrot um húsbændur. Napoleon var sendur í útlegð til St. Helenu og dómar kveðnir upp yfir bandalagsríkjum hans. Saxar misstu þá helming lands síns til Pússa  og nær allir Sorbar urðu prússneskir þegnar. Prússar hófust þegar, af kunnuglegri hörku, handa við að gera Sorba að Þjóðverjum. Sorbneskum mannanöfnum var breytt í þýsk. Tónskáldið Korla Awgust Kocor hét upp á þýsku Karl August Katzer,nafnið Hlynik varð að Müller o.s.frv. Árið 1835 var bannað með lögum að kennt yrði á sorbnesku. Bannið náði þó ekki til kennslu í kristnum fræðum.

Ef eitthvað eitt einkenndi Evrópu 19. aldar öðru fremur var það rómantísk þjóðernishyggja sem var í senn arfleifð upplýsingar 18. aldar, hugmynda frönsku byltingarinnar og breytinga sem fylgdu í slóð herja Napoleons um alla álfu. Hversu óburðugar sem þjóðir voru eignuðust þær skáld, heimspekinga og fræðimenn sem fóru með himinskautum mærðu gullna fortíð og kvöttu þjóðir sínar til dáða. Hugmyndin um þjóðríkið var að mótast og krafan um þjóðfrelsið að eflast. Það hrikti í stoðum fjölþjóðlegra ríkja og brot einnar þjóðar sem voru innan tveggja eða fleiri ríkja leituðu saman. Þýska bandalagið og Austurríska-Ungverska keisaradæmið urðu til 1806 þegar hið Heilaga rómvarska ríki liðaðist í tvennt. Það fyrrnefnda var fjölþjóðlegt og í burðarstoðum þess hrikti alla 19. Öld. Hið síðarnefnda var laustengt bandalag sjálfstæðra ríkja sem rúmuðu í aðal atriðum eina og sömu þjóðina. Þjóðverjar eignuðust baráttummenn fyrir sameiningu þýskrar þjóðar.

Pólverjar, sem ekkert ríki áttu, eignuðust skáld og uppreisnarmenn  sem hvöttu til þess að þjóðin brytist undan yfirráðum kúgara sinna og stofnuðu sjálfstætt ríki.  Jafnvel fátæk vesæl þjóð í Atlantshafi miðju eignaðist sína Fjölnismenn og þjóðfrelsishetjur. Sama gilti um þjóðir sem aldrei höfðu myndað sjálfstæð ríki, Sorbar, Kasjúbar og þjóðir baltnesku landanna. Eldur þjóðernisvakningar fór einnig þar um grundir. Reyndar þurfti ekki þjóðir til að tendra frelsisbál. Verkalýðshreyfingin sem átti ekkert föðurland sá reyndar ekki fortíð sína í rómantískum bjarma en þeim mun glæstari var framtíðarsýnin.

Viðrögð Sorba við hörkulegri menningarstefnu Prússa var í takt við tíðaranda 19. aldar. Þeir fylktu sér undir merki þjóðlegra gilda og hófu að vegsama sögu sína og menningu.  Árið 1843 kom út þýsk-sorbnesk orðabók eftir Jan Arnost Smoler (1816-1884). Hann var einnig í forystu fyrir stofnun félaga áhugamanna um sögu Sorba og sorbneska tungu og lagði grunn að hreintungustefnu af líkum toga og Fjölnismenn stóðu fyrir hér á landi. Sorbnesk tunga skyldi hreinsuð af þýskum slettum, gömlum orðum gefið nýtt líf og ef þurfti voru pólsk eða tékknesk orð sett í stað þýskra. Þetta var reyndar það sama og  málhreinsunarmenn annars staðar í Evrópu voru að gera á 19. öld. Þeir fóru í sveitirnar að leita að hinni hreinu tungu.

Eins og aðrir létu slavar berast með öldu þjóðernisvakningar 19. aldar. Víða voru stofnuð félög sem börðust fyrir stofnun eins slavnesks ríkis. Slík panslavnesk félög fengu mikinn byr í seglin, ekki síst innan hinna stóru fjölþjóðlegu ríkja á Balkanskaga, Austuríska ungverska keisaradæmisins og Ottómanafeldisins tyrkneska. Mörg panslavísk félög fengu nafnið Matica (Móðir), kennd við móður eða uppruna.  Árið 1847 stofnaði Smoler og aðrir menntamenn Matica hreyfingu Sorba (Maćica Serbska) sem var sniðin eftir þeirri slóvensku. Tilgangur hreyfingarinnar var að styrkja stoðir sorbneskrar menningar á öllum sviðum samfélagsins, efla vísindi, fræði og listir s.s. sögu, þjóðfræði, bókmenntir, málvísindi, grasafræði, tónlist, o.s.frv. Þessi hreyfing sór sig mjög í ætt við kynþáttastefnu Slava sem lagði áherslu á einingu Slava og miðaði að því að auka virðingu umheimsins fyrir menningu þeirra og gildum.

Þegar kom fram á seinni hluta 19. aldar stóðu Sorbar enn einu sinni frammi fyrir miklum vanda. Iðnvæingin var komin á fulla ferð og hún hvíldi á mikilli orkunotkun. Þegar sókn eftir orku er annars vegar eru fáir múrar ókleifir. Blómlegar sveitir, skógar og önnur búsvæði plantna og dýra stóðu ekki í vegi. Miklar brúnkolanámur reyndust vera á landi Sorba og ágangur námafyrirtækja leiddi til þess að mörg þorp og bæir urðu að víkja fyrir námum. Líkt og Öskjugos og kuldavetur ýttu undir flótta Íslendinga til Vesturheims á ofanverðri 19. öld jók námagröftur áhuga Sorba á vesturferðum sem þá voru þegar hafnar. Sorbneskt máltæki minnir á þessa nöturlegu staðreynd: ,,Góður guð gaf okkur Lausitz og andskotinn gróf þar niður kol.“ Og enn er verið að grafa brúnkol úr námum í byggðum Sorba.

Í Berlín lifa sögur um stúlkurnar frá Spreewald sem voru áberandi á götum borgarinnar í lok 19. aldar og fram að fyrri heimstyrjöld. Þær þekktust af þjóðlegum klæðum sínum og einkum af hinum sérstaka og fyrirferðarmikla höfuðbúnaði. Berlínarbúar nefna þær Spreewalder Ammen, stúlkurnar sem gáfu brjóst. Sagt var að brjóstamjólk stúlknanna frá Spreewald væri einstaklega næringarrík og heilsusamleg börnum og því hafi sæmilega efnaðir foreldrar í Berlín gjarnan fengið stúlku frá Spreewald sem barnapíu og brjóstagjafa. Víst er að á þessum árum var mikið um Sorbastjúlkur á götum Berlínar sem voru vinnukonur og í samfélagi hinna efnameiri þótti það stöðutákn að hafa a.m.k. eina slíka á heimilinu. Í mörgum fjölskyldum í Neðralausitz  er þó dregið í efa að amma eða langamma hafi gegnt starfi brjóstagjafa, vinnukonu eða barnapíu, þótt víst sé að hún hafi unnið um skeið í Berlín. Ástæða dvalar stúlknanna frá Spreewald í höfuðborinni á árunum fyrir fyrri heimstyrjöld er því enn sveipuð dulúð.[9]

 

Þjóðernisvakning Sorba

 

Bylgja þjóðernisvakningar gekk yfir Evrópu eftir Napoleonstyrjaldirnar og leiddi til uppreisna eins og byltingaröldunnar 1848 og stríða á milli ríkja. Afleiðingar urðu m.a. sameining Þýskalands árið 1871. Það er þversagnakennt að þá er rómantísk þjóðernishyggja tókst að skapa sameinað þýskt ríki leitaðist þetta sama ríki við að kæfa þjóðerniskennd annarra en réttborinna Þjóðverja innan ríkisins. Ástæðan var einföld og rökrétt, þráin eftir að skapa einsleitt þjóðríki. Eftir sameiningu þýsku ríkjanna urðu Sorbar á nýjan leik viðfang tilrauna til að gera þá ,,þýska“. En þjóðernisvakningin hafði einnig náð til þeirra og í stað þess að láta undan síga og hverfa í þýska menningu fór að bera á sterkri þrá eftir að varðveita sorbneska menningu. Afleiðingin varð barátta fyrir viðurkenningu á sérstöðu, fyrir varðveislu menningar og tungu. Í þessum tilgangi var stofnað þjóðvarnarfélagið Macica Serbska árið 1847. Sorbnesk bændasamtök voru stofnuð árið 1888 og 1904 var miðstöð sorbneskrar menningar, Serbski Dom (Hús Sorba) komið á fót í borginni Bautzen og regnhlífarsamtök nokkurra sorbneskra þjóðernissamtaka, Domowina (Ættlandið), var stofnað árið 1912. Tilgangur þessara samtaka var að berjast fyrir rétti Sorba og fá viðurkenningu á að Sorbar teldust þjóð með rétt til menningarlegs sjálfstæðis.

Í fyrri heimsstyrjöld féll um 4-5% sorbnesku þjóðarinnar. Um aldamótin 1900 var hún um 200.000 sem merkir þá að um 8-10.000 manns. Það skipti sennilega meira máli, ekki síst fyrir mannfjöldaþróun hennar, að hinir föllnu voru í flestir ungir menn. Það þarf ekki reiknimeistara til að sjá að þetta hlaut að vera mikill hnekkir fyrir viðkomu þjóðarinnar. Undir lok stríðsins setti Wilson Bandaríkjaforseti fram tillögur í 14 liðum sem hann taldi að friðargerðin ætti að hvíla á. Einn þessara liða var um sjálfsákvörðunarrétt þjóða.  Það var einmitt með hliðsjón af þessu fyrirheiti sem Íslendingar fengu fullveldi við lok stríðsins. En það voru fleiri sem gerðu kröfu um rétt til sjálfsákvörðunar og mörg ný ríki birtust á landakorti Evrópu. Finnland og Pólland urðu sjálfstæð ríki, Baltnesku löndin líka og af rústum Austurríska-ungverska keisaradæmisins risu ný slavnesk ríki, Júgóslavía og Tékkóslóvakía.

Eftir fyrri heimsstyrjöld voru stofnuð samtök um frjálst Lausitz, um þjóðfrelsi Sorba en mættu harðri andstöðu Þjóðverja. Versalafundinum 1919 var ætlað að leggja grunn að réttlátum friði en í reynd kenndi hann komandi kynslóðum fyrst og fremst hvernig ekki ætti að standa að málum. Friðurinn sem átti að hvíla m.a. á sjálfsákvörðunarrétti þjóða var aðeins stundarhlé milli stríða. Sumir sagnfræðingar gagna svo langt að kalla stríðið sem hófst 1914 þrjátíu og eins árs stríðið sem lauk þá ekki fyrr en 1945.  Þegar blásið var til fundar í Versölum bundu íbúar hinnar stríðshrjáðu Evrópu miklar vonir við þá vinnu sem í hönd fór. Formaður sjálfstæðishreyfingar  Sorba, Arnošt Bart-Brězynčanski, fór ásamt nokkrum félögum sínum til Versala og krafðist sjálfstæðis eða sameinigar við slavneskt ríki sem var að fæðast, Tékkland.  Það var reyndar hugmynd sem Tomas Másáryk forystumaður Tékka, hafði viðrað.

Á Versalafundinum voru Þjóðverjar meðhöndlaðir sem glæpamenn og í stað þess að þeir settust að samningaborði voru þeir dregnir fyrir dóm og gefið að sök að eiga meginsök á stríðinu. Að fundinum loknum stóðu Þjóðverjar eftir niðurlægðir með óbærilegar klyfjar stríðsskulda. Krafa Sorba um sjálfstæði eða sameingu við frændur sína Tékka gengu samt ekki eftir. Mál þeirra kom aldrei á dagsskrá fundarins. Í brjóstum Þjóðverja kraumaði reiði og hefndarþrá og ekki við því að búast að þeir brygðust af skilningi við kröfum Sorba um sjálfstæði. Þegar Versalasættin hafði verið undirrituð og sendinefndir komnar til síns heima mættu Sorbar mikilli andúð af hálfu Þjóðverja. Arnošt Bart og aðrir í sendinefnd Sorba voru ásakaðir um að hafa gert tilraun til landráða og Arnošt Bart var dæmdur til tveggja ára tugthússvistar.

Stjórnarskrá Weimarlýðveldisins gaf Sorbum fyrirheit um betri tíma enda tryggði hún þeim og öðrum minnihlutahópum innan ríkisins sem ekki höfðu þýsku að móðurmáli, aukið frelsi í notkun móðurmálsins. Samkvæmt grein 113 átti að tryggja slíkum hópum jafnrétti við aðra gagnvart stofnunum ríkisins, þ.á.m. innan dóms- og menntakerfis.[10] Með hliðsjón af þessu loforði gerðu Sorbar kröfur um sorbneska dómara í heimahögum sínum, um að endir yrði bundinn á hvers konar pólitíska og félagslega mismunun og að komið yrði á fót sorbneskri menntastofnun við háskólann í Leipzig. En allar slíkar kröfur mættu daufum eyrum. Um miðjan þriðja áratug 20. aldar varÞjóðarráð Sorba stofnað og eins áttu þeir aðild að samtökum etnískra minnihlutahópa, ,,Verband der nationalen Minderheiten“, þegar þau voru stofnuð árið 1925. Ætlunin var að innan þessara samtaka væru Sorbar og þjóðabrot eins og Pólverjar, Danir, Frísar og Lithár. Hins vegar naut stofnun samtakanna ekki stuðnings annarra pólitískra flokka en kommúnista.

Hið aukna frelsi sem Weimarlýðveldið bauð Sorbum uppá olli mikilli og frjórri gerjun í menningarlífi þeirra. Fjöldi félaga og samtaka voru stofnuð, já og Þjóðarbanki Sorba, sá dagsins ljós. Á flestum sviðum virtust blasa við bjartari tímar, sérstaklega í Evri-Lausitz þar varð mikil vakning í mennta- og menningarmálum. En váboðar voru við sjónarrönd.

 

Þriðja ríkið

 

Við valdatöku Nasista árið 1933 hófst enn eitt hörmungar tímabil þessarar fámennu þjóðar. Að áliti Nasista voru Sorbar, líkt og aðrir slavar, undirmálsþjóð. Stefnan var sett á að fjarlægja slíkar benjar af hinum þýska þjóðarlíkama. Í Berlín var komið á fót stofnun ,,Wendenabteilun“ með það hlutverk að hafa eftirlit með samtökum Sorba svo að ekki væri hætta á að þau yrðu verkfæri kommúnista og ynnu að aðskilnaði eða annarri ,,sviksamlegri” starfsemi.

Hvers konar félög þeirra voru bönnuð og refsing var lögð við því að tala sorbnesku opinberlega. Að þessu leiti var þó gerð lítil undantgekning. Sá fimmtungur Sorba sem var kaþólskur fékk að lesa á móðurmálinu hvers konar trúarleg rit og það sem kaþólsk kirkja gaf út. Ástæða þessarar mýktar nasista var samningur þeirra (konkordat) við Vatikanið um réttarstöðu kaþólskra í ríkinu.  Sennilega á þessi samningur Þriðja ríkisins og Páfastóls sinn þátt í að mál og menning Sorba hefur varðveist betur í kaþólska hluta Lausitz (Saxlandi) en hjá Lág-Sorbun í Brandenburg, þar sem Lútherstrú er ríkjandi. Einnig getur það haft áhrif að með Lútherstrú varð kirkjan þjóðkirkja og yfirmaður hennar var veraldlegur fursti eða konungur, í tilviki Sorba þýskumælandi. Kaþólska kirkjan með páfa sem æðsta yfirmann var/er í eðli sínu fjölþjóðleg. Í þriðja lagi var það algengt viðhorf meðal kaþólskra að móðurmálið væri guðs gjöf sem standa bæri vörð um. Það skýrir hversu sterk bönd hafa verið á milli kaþólsku kirkjunnar og sorbneskrar þjóðarvitundar allt síðan á 19. öld. 

Þrátt fyrir samning Páfa og nasista voru þjóðernissamtök Sorba, Domowina, leyst upp og bönnuð 1937. Bóka- og skjalasafn samtakanna Maccica Serbska var eyðilagt og söfn sem minntu á sögu og menningu þeirra einnig.  Einkabókasögn Sorba voru brennd og kennarar og prestar fluttir nauðugir til héraða þar sem mikill meirihluti talaði þýsku sem móðurmál. Margir Sorbar létu lífið í útrýmingarbúðum.

Áætlun Himlers var ekki ólík áætlun hans um ,,lausn Gyðingavandamálsins“. Nú hét hún ,,Endlösung der Sorbenfrage“. Áætlunin gekk annars vegar út á að ,,heilbrigt sorbneskt blóð“ yrði gert þýskt. Hins vegar með því að nýta Sorba sem þræla og foringjalaus vinnudýr þar til þeir hyrfu sem þjóð. Sorbar höfðu aðeins einn rétt, að gerast þýskir hermenn. Hins vegar má ætla að þessi ,,réttur“ hafi komið í veg fyrir enn verri örlög, eins og t.d. fyrirhugaða nauðungarflutninga til Úkraínu. Nasistar höfðu einmitt undirbúið slíka fluttninga eftir að endanlegur sigur væri í höfn.  Hin frjóa mold Úkraínu átti tryggja forðabúr Þriðja ríkisins og þar áttu þýskir bændur að halda um stjórntauma. Sorba og fólks af slavnesku bergi beið það hlutskipti að verða vinnudýr í þjónustu ríksins.

 

Þýska alþýðulýðveldið

 

Ríki nasista leið undir lok 1945 og Þýskaland klofnaði í tvö ríki. Við hernám bandamanna lentu á yfirráðasvæði Sovétríkjanna. Þegar friður var kominn á vöknuðu aftur til lífs ýmis áður bönnuð samtök Sorba og gömul baráttumál skutu upp kollum, eins og t.d. sjálfstæði eða sameining við Tékkóslóvakíu. Þjóðarráð Sorba var stofnað í Prag sem setti markið á fullt sjálfstæði og aðild hins nýja ríkis í Lausitz að Sameinuðu þjóðunum. Ýmsir Sorbar, þ.á.m. forysta Domowina, deildu á slíkar áætlanir og sögðu þær vera marklausa hugaróra og drauma. Eftir valdatöku kommúnista í Prag 1948 var sorbneskum  sjálfstæðissinnum gert gert ófært um að starfa áfram í borginni. Um svipað leyti fengu Sorbar í Austur-Þýskalandi réttarstöðu ,,etnísks“ minnihluta í alþýðulýðveldinu bæði lagalega (de jure) og í reynd (de facto). Þessi staða sem ,,sósíalískur þegn alþýðulýðveldisins af sorbneskum rótum“ var þó ekki ókeypis. Henni fylgdi sú kvöð að viðurkenna vísa leiðsögn kommúnistaflokksins. Flokksforystan í Berlín lagði áherslu á að Sorbar gætu styrkt sérkenni menningar sinnar og tungu.

Hvað olli þessari breyttu stöðu Sorba? Sennilega má að einhverju leyti skýra réttarbætur þeirra út frá sjálfhverfum ástæðum flokksins.  Annars vegar gátu Sorbar myndað eins konar brú á milli Austur-Þýskalands sósíalískra bræðra í Rússlandi og öðrum slavneskum ríkjum austur blokkarinnar. Hins vegar mátti taka þá sem dæmi um að félagslegt og pólitískt frelsi í húsi þýska alþýðulýðveldisins, þar rúmuðust allir, líka Sorbar.

Fáir etnískir minnihlutahópar munu hafa notið jafn mikilla styrkja á hvern einstakling eins og Sorbar fengu í þýska alþýðulýðveldinu. Bókaútgáfa á sorbnesku tók þá mikinn kipp og bóka- og blaðaútgáfa var töluverð og er enn. Há-Sorbar gefa út dagblaðið Die Serbske Nowiny. Lág-Sorbar gefa útvikuritið Nowy Casnik. Auk þess er gefið út menningarritið Rozhlad og barnablaðið Płomjo. Kaþólskir gefa út Katolski Posoł og lútherskir Pomhaj Bóh. Auk þess gefur Sorbneska Stofnunin úr mennignarritið Lětopis. Á dögum Alþýðulýðveldisins var komið á fót stofnun um sorbnesk málvísindi og þýsk/sorbneskt leikhús var stofnað í Budyšín (Bautzen).

Sorbar fengu sérstaka skóla, leikskóla og dagheimili. Útvarpssendingar voru reglulega á sorbnesku og sorbneskar hátíðir með litríkum þjóðbúningum Sorba voru haldnar margar á ári. Þrátt fyrir þetta, og kannski vegna þessa, minnkaði áhugi fólks á að taka þátt í sorbneskum uppákomum. Fólk var farið að tengja samtök Sorba og hátíðir sem þau stóðu fyrir við kommúnistaflokkinn, þau væru eins konar strengjabrúður kommúnista. Árið 1969 voru sammtökin Domowina sæmd heiðurstitlinum ,,sósíalísk fjöldahreyfing“ og með því skuldbundin til þess að sverja flokknum, Sozialistische Einheitspartei Deutschlands, (SED) og sameiginlegu föðurlandi Sorba og Þjóðverja hollustueið. Samkvæmt opinberum heimildum höfðu Domowina um 15.000 félagsmenn og það stjórnaði öllu pólistísku og menningarlegu starfi Sorba. Hið kæfandi faðmlag flokksins leiddi til þess að kristilega þenkjandi fólk til sveita átti í erfiðleikum með að finna samhljóm síns eigin lífs og Domowina. Þegar Honecker féll frá völdum hófst fjöldaflótti úr félaginu sem skýrist m.a. af því að 53 af 76 stjórnarmönnum voru í SED og það í samtökum sem töldu sig vera fulltrúa allra Sorba. Hvað sem segja má um Þýska alþýðulýðveldið verður að viðurkennast að kjör og réttindi þjóðarinnar höfðu aldrei verið eins mikil og góð eins og á lífdögum þess. Ef eitthvað var má segja að ást flokksins á Sorbun var kannski helst til heit og faðmlagið helst til kæfandi.

 

Hvað svo?

 

Þegar horft er til stöð Sorba á tímum Alþýðulýðveldisins blasir við að:

  • Þrátt fyrir fjárframlög til að styrkja tungu þeirr og menningu fækkaði þeim sem talaði sorbnesku daglega.
  • Sorbnesk þjóðernishyggja stangaðist á við hina opinberu sósíalísku alþjóðahyggju.
  • Aukið brúnkolanám á sorbnesku landi olli náttúruspjöllum og flótta úr sveitum.
  • Samyrkjubúskapur sveitanna olli því að þorpssamfélög Sorba sem voru ein af grunnstoðum menningar þeirra leystust víða upp.
  • Andúð stjórnvalda á kirkjulegu starfi gerði Sorbum erfitt fyrir að hlúa að kirkjustarfi sem var önnur grunnstoð sorbneskrar menningar.

 

Í einingarsamkomulagi Þýska sambandslýðveldisins og Þýska alþýðulýðveldisins var m.a. fjallað um framtíð Sorba í sameinuðu Þýskalandi. Samkomulag var um:

  • Að Sorbum sé frálst að hlúa að þjóðerni sínu og menningu.
  • Að tryggt verði að tryggt verði að Sorbum verði gert kleyft að standa vörð um og þróa menningu sína og siði án íhlutunar.
  • Einstaklingum og félögum verði frjálst að hlúa að sorbneskri tungu og tala hana opinberlega.

Efnahagskreppan sem Þjóðverjar þurftu að glíma við eftir fall múrsins var dýpst í austur hlutum Þýskalands og kom hvað harðast niður á Sorbum. Ástæðan var sú að efnahagskerfið hrundi og þau héruð sem atvinnulíf var fábrotnast, þar sem landbúnaður og hráefnaframleiðsla voru burðarstoðir atvinnulífsins, urðu verst úti. Brúnkolavinnslan í héruðum Sorba, landbúnaðurinn og vefnaðarframleiðslan lentu í miklum erfiðleikum. Afleiðingarnar voru atvinnuleysi, og byggðaflótti. Hrunið hafði hins vegar þær jákvæðu afleiðingar að hlé varð á brúnkolavinnslu og þar með dró úr gríðarlegum umhverfisspjöllum og mengun sem var farin að ógna lífi í byggðum Sorba. Í héruðunum kringum Cottbus urðu 50 bæir fórnarlömb hinnar sósíalísku orkustefnu sem reist var á brúnkolavinnslu. ,,Kol fyrir lýðveldi vort“ voru slagorð stjórnvalda í Lausitz. Á sama tíma og námavinnslan breytti blómlegum byggðum í óbyggilegar auðnir spúðu reykháfar kolaknúin raforkuver milljónum tonna af koldíoxíð á ári hverju yfir enn stærra svæði. Þeir sem verst urðu fyrir barðinu á þessari stóriðjustefnu voru þeir sem hvorki komust lönd né strönd og aldrei voru spurðir, bændur og annað alþýðufólk. Og ýmis önnur vandamál blöstu við Sorbum í upphafi 10. áratugarins. Innan samtaka þeirra Domowina kom til uppgjörs sem leiddu til klofnings. Ásakanir komu fram um að stjórn samtakanna hafi látið kommúnistaflokkinn nota sér sorbnesku þjóðina. Á hátíðlegum stundum voru settar upp sýningar brosandi Sorba í litríkum þjóðbúningum sem blésu í sekkjapípur sínar. Slíkar sýningar voru eins og rós í hnappagat flokksforystu sem vildi flagga umburðarlyndi og víðsýni flokksins.  Einn armur Domowina vildi halda fast við hinn sósíalíska draum aðrir vildu fordæma og kröfðust uppgjörs samtakanna við áratugalanga þjónkun við flokkinn. Hvað sem slíkum deilum líður hélt fólk áfram sínu hvunndaglega lífi og leitar nýrra leiða varðveita og efla menningu sína og tungu í hinu nýja Þýskalandi.

Við sameiningu austur og vestur þýsku ríkjanna skuldbatt sambandsstjórnin til að standa vörð um og efla menningu Sorba.[11] Strax í júní 1991 var sett í lög fáni Sorba sé blár, rauður og hvítur og jafngildur þýska ríkisfánanum í byggðum Sorba.[12]

Í október sama ár var komið á fót Stofnun um málefni Sorba, (Załožba za serbski lud)með aðalstöðvar í Bautzen. Stofnunin hefur það hlutverk að efla menningu Sorba og  gagnkvæman skilning og samvinnu þjóða og þjóðarbrota í Þýskalandi og í Evrópu. Hún er fjármögnuð í sameiningu af ríkinu og stjórnum sambandsríkjanna Saxlandi og Brandenburg.[13] Jafnframt á stofnunin að standa vörð um söguleg og rótgróin tengsl Sorba og annarra slavneskra þjóða og með því mynda brú milli Þýskalands og Austur-Evrópu. Það er til marks um væntingar sem bundnar voru við stofnunina, að stofnskjöl hennar voru undirrituð í borginni Wojerecy, (Hoyerswerda). Vafalaust eru margir jafn nær þegar þeir sjá nafn þessa austur þýska bæjar. Það er því sennilega ástæða til að rifja upp. Það upplausnar ástand sem ríkti í Austur Þýskalandi 1989 varð að stjórnleysi eftir að kosningarnar í mars 1990 leiddu í ljós að kommúnistaflokknum hafði verið algjörlega hafnað. Áratuga gömul óánægja og gerjandi reiði blossaði upp og leitaði útrásar. Í mörgum tilfellum beindist reiðin að fátæku farandverkafólki. 1. Maí 1990 komst þýska bæjarnafnið Hoyerswerda í kastljós fjölmiðla vegna óeirða sem brutust þar út. Milli 150 og 200 ungir hægri öfgamenn réðust þá á 50 farandverkamenn frá Mozambique og grýttu gistiskála þeirra meðan á annað þúsund manns fylgdust með.[14] Ofsóknir af sama toga, gegn Víetnömum, Sígaunum og farandverkafólki frá Mozambique, blossuðu ítrekað upp í þessum annars friðsæla bæ og gerðu hann að tákngerfingi þeirrar kynþáttahyggju sem fór ljósum logum um Austur Þýskaland í byrjun 10. áratugarins. Þessi atburður, sem reyndar var ekki einstakur í þessum bæ né í Ausur Þýskalandi, þótti vera til marks um útlendingahatur sem hafði losnað úr læðingi á þessum dögum algjörs stjórnleysis. Það hafði þess vegna táknrænt gildi að undirrita stofnskrá þessarar stofnunar. En það hafa einnig komið til mótmæla af öðrum toga m.a. gegn sparnaðaráformum stjórnvalda sem hafa bitnað á einstökum skólum Sorba og öllu menningar og menntakerfi þeirra. Einnig hafa blossað upp mótmæli gegn áframhaldandi brúnkolanámi sem hefur haft þær afleiðingar að enn er verið að flytja fólk nauðungarflutningum úr þorpum sínum og af landi sínu. Þessi stefna hefur m.a. beinst að þorpinu Schleife (Slepo) í Saxlandi rétt við pólsku landamærin þar sem varðveist hefur sérstök mállýska og þjóðbúningur frábrugðinn öðrum.

 

Tákn.

 

Árið 1842 kom fram tillaga um þjóðfána Sorba. Hann skyldi vera í litum panslavismans, hvítur, blár og rauður. Á þingi panslavista í Prag 1848 var sorbneska fánanum flaggað í fyrsta sinn sem þjóðartákni. Hann hefur verið óbreyttur síðan en var bannaður 1935-1945. Litir og lögun eru eins og í rússneska fánanum en í þeim sorbneska er röð litanna að ofan: blár, rauður og hvítur. Þjóðsöngurinn er óður til fegurð átthaganna, sveitanna og heitir Fagra Lausitz ,,Rjana Łužica“ í dag njóta þessi þjóðartákn Sorba sömu réttinda og virðingar og þýski þjóðfáninn og þýski þjóðsöngurinn.

Kannski hafa hætturnar sem steðja að hinni sérstöku menningu og tungu þessarar fámennu þjóðar aldrei verið meiri en einmitt nú á tímum aukins frelsis og aukinna möguleika fyrir ungt fólk. Mesta hættan er einmitt flóttin frá sveitunum og fátækum bæjum. Það er flóttin frá einhæfu og illa launuðu atvinnulífi þangað sem ungt fólk trúir að vængjaðir draumar geti ræst. Það er þó langt í frá að þeir sem eftir eru séu að gefast upp. Ýmislegt er gert. Domowina starfar enn og það gerir líka sorbneska þjóðleikhúsið. Sorbneska útvarpið sendir út bæði hljóðvarp og sjónvarp á sorbnesku. Sorbneskir grunnskólar og menntaskólar eru starfræktir og í nokkrum þýskum grunnskólum fá börn kennslu í sorbnesku. Þá er sorbneska kennd sem sjálfstætt fag við háskólann í Leipzig. Dagblöð og tímarit koma út og barnaflaðið Plomjo (Neistinn).

Þrátt fyrir töluvert öflugt menningarstarf bera ýmsir kvíðboga fyrir að Sorbar muni verða fórnarlömb sameiningar þýsku ríkjanna. Áhyggjurnar beinast einnig að þýskri þjóðernishyggju sem gaus upp í Austur þýskalandi. Að vísu hafa Sorbar ekki mætt viðlíka hatri og hælisleitendur og farandverkamenn en þó hefur borið við að snoðskallar hafi veifað borðum með slagorðum eins og Sorbarna burt! Þjóðir hafa komið og farið, birtst og horfið, og stundum án þess að skilja eftir sig mörg eða djúp spor. Nútíma lesandi þekkir t.d. ekki margar þær germönsku þjóðirnar sem rómverski sagnaritarinn Tacitus (56/57 – 117) ritar um í Germaníu.  Víst er að Sorbar verða ekki frekar en aðrar þjóðir, um endalausa framtíð á þessari jörð. Hins vegar er áleitin spurning hvort ,,indíánar miðevrópu, eins og rithöfundurinn Jurij Brězan (19162006) nefndi þjóð sína, muni halda menningu sinni og tungu í næstu þúsund ár líkt og þeir hafa gert síðusta árþúsundið. Hvort þeir muni halda áfram að auðga litróf evróskrar menningar með tilveru sinni eða hverfa?

 

Siðir

 

Þegar farið er um Lausitz rekur maður stundum augin í eitthvað sem er öðruvísi en tíðkast annars staðar í Þýskalandi. Það er eitt að sjá einhverja breytingu, annað að greina hver hún er. Líkt og þegar maðurinn sem hafði um árabil haft alskegg, rakaði það af. Þegar kona hans sá hannhorfði hún undrandi á hann og spurði svo, -varstu að fá þér ný gleraugu?

            Ef ekið er um sveitir á miðju sumri eru heysáturnar slavneskrar gerðar en ekki þýskrar. Trjágrein er rekin niður í svörðin og hey heng á það. Það er kannski líkt og með breytinguna á andliti karlsins sem rakaði sig að maður finnur fyrir breytingum en er kannski ekki alveg viss hverjar þær eru. Sáturnar eru slavneskar! Hverjum dytti í hug að óreyndu að það væri einhver munur á heysátum? En það er ýmislegt annað sem við tökum eftir þegar athyglin er skerpt. Þegar við komum í hin kaþólsku héruð Hásorba, svæðið sem markast af Bautzen, Kamenz og Wittichenau, sjáum við fleiri kirkjur og skreyttari kirkjugarða en víðast annars staðar í Þýskalandi. Við vegbrúnir blasa líka víða við blómum skrýddir róðukrossar og það þarf enga heppni að rekast á eldri konur í litríkum þjóðbúninum hlúa að blómum og krossa sig að kaþólskum sið.

 

 

 

 

 

 

 

 

                                                                                                   

 

 

 

 [1]Talið er víst að hún hafi staðið á eynni Wolin í ósum Óderfljóts en menn ekki getað staðfest hvar Jómsborg var.

[2]Heimskringla, bls. 170.

[3]Snorri Sturluson: Ólafs saga Tryggvasonar, Heimskringla, bls. 169-177

[4]Heimskringla , bls. 582.

[5]Sverrir Jakobsson: Við og veröldin, bls. 233.

[6]Fredegar króníka (ár 631/32) segir þá búa við ána Saxelfi.

[7]Hið heilaga rómverska ríki var stjórnarsamband landa í vestur og mið-Evrópu og var við lýði frá árinu 843 þar til það leystis upp við stofnun Austuríska keisaradæmisins og þýska bandalagsins 1806.

[8]Helgi P Briem: Sjálfstæði Íslands 1809.

[9]http://regionalpark-mueggel-spree.de/content/rubrik/1259.html

[10]Í gr. 113 segir m.a. að: „fremdsprachigen Volksteile des Reiches […] durch die Gesetzgebung und Verwaltung nicht in ihrer freien volkstümlichen Entwicklung, besonders nicht im Gebrauch ihrer Muttersprache beim Unterricht sowie bei der inneren Verwaltung und der Rechtspflege beeinträchtigt werden“

[11]Einingungvertrag, protokollnotiz Nr. 14 zu Art. 35.

[12]Serbska chorgoj ma modru, cerwejenu a bělu barwu. Wona smějo se w starodawnem sedleńskem rumje Serbow rownopšawnje ze statymi symbolami wužywaś.

[13]Die Stiftung für das sorbische Volk, lög, gr. 2/5: Der Stiftungszweck wird insbesondere verwirklicht durch die Förderung von Projekten und Vorhaben, die der Völkerverständigung und Zusammenarbeit mit anderen Volksgruppen und nationalen Minderheiten in Europa sowie die Pflege der historisch gewachsenen Verbindungen der Sorben zu den slawischen Nachbarn im Sinne des Brückenschlagens zwischen Deutschland und Mittel- und Osteuropa dienen;

[14]Lausitzer Rundschau 5. Maí. 1990.